Hópsnes ehf. er leiðandi fyrirtæki í rekstri endurvinnslufyrirtækja, gámaþjónustu og sorphirðu á Íslandi.

usgs-XFWg9u0TYs4-unsplash

Hópsnes ehf. var stofnað árið 1965 og var upphaflega útgerðarfyrirtæki sem átti einn lítinn vertíðarbát. Félagið stækkaði fljótlega og við bættist fiskvinnsla í landi og síðar fleiri fiskiskip.

Frá stofnun og allt til ársins 1995 voru meðal annars gerðir út bátarnir Hópsnes GK og Höfrungur II GK ásamt því að reka fiskverkun í Grindavík. Á þessu tímabili var lítill frystitogar smíðaður fyrir félagið í Póllandi. Á árinu 1995 urðu miklar breytingar í rekstrinum þegar fiskiskip og kvóti þeirra var seldur.

Félagið var upphaflega stofnað af þremur einstaklingum sem allir unnu hjá félaginu en á árinu 1995 fóru tveir þeirra frá því og var þeim greiddur út þeirra hlutur í félaginu. Eftir stóð einn hluthafi, Edvard Júlíusson, með um 5000 m2 af húsnæði við Verbraut í Grindavík sem stóð að mestu autt.

Til að finna því hlutverk var farið að veita sjávarútvegsfyrirtækjum þjónustu með ýmsum hætti svo sem með geymslu og dreifingu á fiskisalti til fiskvinnsluhúsa á Suðurnesjum. Að auki tók félagið að sér að losa félög við úrgangssalt sem var flutt í krókheysisgámum

HP Gámar

Gámaþjónusta jókst jafnt og var hún markaðssett undir nafninu HP Gámar. Til viðbótar við gámaþjónustu hafði félagið með höndum almenna sorphirðu á Suðurnesjum í sex ár en þeirri þjónustu lauk í febrúar 2018.

HP gámar veita þjónustu um allt land með séstaka áherslu á hvers kyns sorphirðu fyrir atvinnurekstur. Starfsstöðvar félagsins eru á Akureyri, Grindavík, Reyðarfirði og í Reykjavík.

Umhverfisvitund landsmanna hefur aukist mikið á undanförnum árum og leggja mörg fyrirtæki mikinn metnað í flokkun úrgangs til endurvinnslu. HP Gámar bjóða upp á mikið úrval ruslagáma, djúpgáma, pressugáma og skipagáma. Einnig er félagið umboðsaðili fyrir Molok í Finnlandi sem framleitt hefur djúpgáma frá 1991. Samsetning djúpgáma Molok byggir á einfaldleika sem þarfnast lítils viðhalds og eru þeir þvi mjög hagkvæmur kostur fyrir húsfélög og stærri fyrirtæki.

Markmið félagsins er og hefur ávallt verið að hafa gáma og tæki ávallt snyrtileg og að þau séu góð auglýsing fyrir félagið og veiti því jákvæða ímynd. Einnig er mikil áhersla á að veita viðskiptavinum faglega ráðgjöf um flokkun úrgangs og leiðir til að lágmarka kostnað við sorphirðu. Stjórnendur félagsins eru meðvitaðir um að mikil þróun á sér stað í flokkun og endurvinnslu úrgangs og mikilvægt er að vera í fararbroddi í þeirri þróun.

HP gámar eiga einn öflugasta færanlega kurlara landsins og geta boðið fyrirtækjum og sveitarfélögum þjónustu um allt land. Kurlarinn er af Husmann gerð og kurlar trjágróður og timbur.

hopsnes-header

HP Flutningar

Á árinu 2016 keypti Hópsnes Flutningaþjónustu Sigga á Suðurnesjum og breytti nafni félagsins í HP Flutninga.

HP flutningar eru sérhæfðir í vöruflutningum milli Reykjavíkur og Suðurnesja og eru með daglegar ferðir á milli Reykjavíkur, Voga, Grindavíkur og Reykjanesbæjar

HP Fasteignir

Á árinu 2017 voru allar fasteignir í eigu Hópsness fluttar í sérstakt félag HP fasteignir ehf. Fasteignum í eigu félagsins hefur fjölgað þar sem 700 m2 lagerhúsnæði var byggt fyrir stærsta viðskiptavin þess.

Á árinu 2022 mun þessi bygging verða stækkuð um 600 m2.
Allt húsnæði í eigu félagsins er leigt út.

Hringrás

Hópsnes keypti Hringrás á síðari hluta árs 2019. Hringrás er leiðandi fyrirtæki í móttöku, flokkun og endurvinnslu brotmálma á Íslandi. Félagið hefur yfir að ráða sérhæfðum og hagkvæmum tækjakosti sem gerir kleift að veita viðskiptavinum öfluga og góða þjónustu svo sem:

  • Færanlegar og öflugar brotajárnspressur
  • Stórvirkar færanlegar málmklippur
  • Öruggar beltagröfur, grabbar og seglar
  • Stórir og hagkvæmir vagnar og krókheysisvörubílar til að flytja brotamálma
  • Mikill fjöldi stórra og smárra gáma, bæði opnir og lokaðir fyrir hvers kyns úrgang.


Hringrás vinnur eftir ströngum reglum sem miða að því að straumlínulaga og bæta starfsemi fyrirtækisins.

hopsnes-header

Brotamálmar

Aðferðir og tæki til söfnunar, vinnslu og útflutnings brotmálma hafa þróast mikið, en fyrirtækið flytur árlega úr landi um 40.000 tonn af brotmálmum.

Í meira en hálfa öld hefur Hringrás þróað aðferðir við endurvinnslu brotajárns og málma og innleitt ýmsar lausnir sem hafa gefist vel við íslenskar aðstæður.

Félagið hefur tekið að sér fjölda hreinsunarverkefna í íslenskri náttúru með góðum árangri um land allt. Meðal slíkra verkefna má nefna niðurrif Kísilverksmiðjunnar við Mývatn, hreinsun og átaksverkefni fyrir ýmis bæjarfélög auk niðurrifsverkefna fyrir Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli.

Á athafnasvæði Hringrásar er er tekið við bílum til förgunar, brotajárni, öðrum málmum og ónýtum hjólbörðum sem fluttir eru út til endurvinnslu.

Félagið er með starfsstöðvar á Akureyri og Reyðarfirði þar sem tekið er á móti bílum til förgunar, brotmálmum og hjólbörðum. Færanleg brotajárnspressa gegnir lykilhlutverki í þjónustu við bæjarfélög á landsbyggðinni.

Þannig getur fyrirtækið leyst á hagkvæman hátt margvísleg verkefni hjá bæjarfélögum víða um land auk sérstakra niðurrifsverkefna sem ráðast þarf í.

Algengt er að fyrirtæki og bæjarfélög geri langtímasamning við Hringrás sem þá sér um að úrgangur safnist ekki upp hjá viðkomandi viðskiptavini. Ef um góð endurseljanleg efni er að ræða getur slík þjónusta veitt verkkaupa umtalsverðar tekjur.

Í ársbyrjun 2021 voru Hringrás og HP gámar sameinuð í eitt félag undir nafni Hringrásar. Ljóst er að sameiningin hefur tekist vel og hefur mikið hagræði verið af henni í rekstri auk þess sem unnt hefur verið að veita viðskiptavinum betri þjónustu.

Á síðari hluta árs 2021 var fjárfest í nýju athafnarsvæði fyrir félagið við Álhellu í Hafnarfirði og stefnt er að því að flytja starfsemi félagsins þangað í lok árs 2022.

Hópsnes var eins og áður hefur komið fram stofnað 1965 og þarf oft að benda fólki á það að Hópsnes ehf. er ennþá rekið á sömu kennitölu og frá stofndegi.

Félagið hefur genið í gegnum miklar breytingar á starfstíma þess, en það var upphaflega stofnað um útgerð á einum vertíðarbát en er nú eignarhaldsfélag um eignarhald á framangreindum félögum.